Staðreynd – Local Fact
Staðreynd – Local Fact, 2014 Listasafnið á Akureyri 30.08-12.10.2014
Sýningin samanstendur af 6 verkum sem tilheyra sýningarröðinni “Staðreynd” sem ég hef unnið að síðan 2008, þar af nýtt verk sérstaklega unnið fyrir Listasafnið “staðreynd 6-… Samlag”, og eitt verk frá 1988 frá skólaárum mínum í Hollandi. Þegar ég fór að vinna að sýningunni í Listasafninu áttaði ég mig á tenglsum þess verks við hugmyndaheim yngri verkanna en öll byggja þau á ákveðinni rýmis könnun. Ég sýndi því verkið með og kallaði það Staðreynd 0- La.
Verkin eru öll unnin fyrir ákveðna sýningarstaði og nota ég rödd og hreyfinu til að varpa ljósi á eiginleika rýmisins og kalla fram tengingar við fortíð og nútíð. Ég vinn sönggjörning í rýminu sem ég tek upp á myndband og sýni síðan á sama stað.
Í Listasafninu á Akureyri stefni ég þessum verkum saman, flyt þau yfir á nýjan stað og gef þeim nýtt samhengi. Ég leyfi þeim að talast við og leyfi hljóðheimum þeirra að mætast og skapa með því nýjan.
Hugtakið staðreynd varð upphaflega til sem vinnuheiti á sýningu minni við upphafs-opnun Verksmiðjunnar á Hjalteyri 2008. Ég lagði mig eftir því að skynja reynd staðarins eða raun, sem endaði með videogjörningi þar sem ég gekk hægt fram ganginn þar sem færibandið var á síldarárunum og raulaði Síldarvalsinn og sýndi svo verkið í sama gangi.
Í framhaldinu for ég að vinna fleiri verk sem byggðu á sömu rannsókn og smám saman áttaði ég mig á því að þetta var orðið að sýningarröð.
Í öllum verkunum reyni ég að leyfa augnablikinu að lifa eins og það er. Ég reyni að ritskoða sem minnst og öll eftirvinna er eins einföld og kostur er.
Bókarútgáfa – Staðreynd – Local Fact
Á opnunardag kom út 24 síðna bók um verkin sem liggja á bak við sýninguna með greinargóðum texta eftir Hlyn Helgason. Nafni hans Hlynur Hallsson sem var sýningarstjóri sýningarinnar ritaði inngang og Sigríður Snjólaug Vernharðsdóttir hannaði útlit bókarinnar sem var prentuð í Ásprenti.
Bókin er til sölu hjá Eymundsson, hjá Flóru á Akureyri, í Listasafninu á Akureyri og í Listasafni Reykjavíkur.
Um verkin segir Hlynur Helgason á einum stað að hlutverk raddarinnar sé sérstakt og áberandi; Það er persónulegt og tengist Örnu sjálfri. Ómurinn er hennar leið til að skrá rýmið og tileinka sér það. Eins og fugl sem helgar sér svæði með kvaki sínu gerir Arna rýmið að sínu með því að raula í því.
Að lokum segir Hlynur og ber saman Staðreynd 1 og 5;
Staðreyndirnar eru staðsettar, í reynd, á milli þessara tveggja verka, á milli hinnar raunverulegu staðsetningar gjörnings og söngs og leiksins sem á sér stað í nálægð persónunnar sem fyllir myndflötinn. Það eru þessir þættir sem vinna saman í verkunum og ljá þeim sérstöðu sína og áhrifamátt.
Sýningin var tilnefnd til Menningarverðlauna DV 2014.
Staðreynd – Local fact
Staðreynd 6- Samlag, 2014 Staðreynd – Local Fact Listasafnið á Akureyri
Video innsetning
Verkið vann ég sérstalega fyrir sýninguna í Listasafninu út frá þeirri einföldu staðreynd að þegar ég var unglingur var Mjólkursamlag KEA til húsa þar sem Listasafnið á Akureyri er nú. Ég byrjaði að vinna þar 13 ára gömul í ostagerðinni og síðar vann ég í nýja samlaginu þegar það hóf starfsemi á öðrum stað í bænum. Í hvert sinn sem ég geng um Listasafnið finnst mér ég finna örlitla mysulykt í loftinu og þekki hljóðið í flísunum í stigaganginum.
Verkið vann ég annarsvegar í nýja samlaginu og hinsvegar í Listasafninu á þeim stað þar sem ostagerðin var og sýndi það þar.
Verkið er það eina á sýingunni þar sem ég raula óhlutbundna laglínu sem varð til á staðnum, eða raddteikningu eins og mér finnst gaman að kalla það. Þá læt ég stund og stað móta laglínuna.
Sem unglingur fannst mér gott að semja litlar laglínur í huganum við rytma vélanna og taktinn í vinnu okkar.
Þarna tel ég að upphafið af tilraunum mínum til að vinna með rýmið sem myndflöt hafi byrjað sem og sú hugsun að vinna myndrænt með rödd og hljóð.
Staðreynd -Local Fact – Arna Vals document 2014 from Arna Valsdottir on Vimeo.