Vatnið Syngur

Vídeó/sönginnsetning
Vatnsberinn Fjall+Kona
Kúlan í Ámundarsafni
Listasafn Reykjavíkur

Verkið vann ég sérstaklega inn í kúluna í Ásmundarsafni. Mín fyrsta hugsun þegar ég kom í kúluna var að ég vildi snerta hana á sama hátt og myndhöggvari sem strýkur stein. Ég gerði litla hráa töku þar sem ég strauk veggina og raulaði litla laglínu sem varð til á því augnabliki.

Í framhaldinu ákvað ég að teygja mig yfir til vatnsberans og strjúka líka vatn og raula. Einhverskonar hugsun um fingurgóma myndhöggvarans og vatnsberanna sem unnu erfiðisstörf en hafa ekki síður átt sína drauma og þrár og þörfina fyrir að snerta. En það er erfiðara að móta úr vatni en leir eða höggva í stein. Erfitt að beisla vatnið!

Þessi hugsun leiddi mig út á Eyjafjörð á gúmmíbát á ísköldum febrúardegi þar sem ég gerði upptöku þar sem ég strauk hafflötinn og raulaði litla laglínu sem varð til á því augnabliki sem ég stakk hendinni í sjóinn og kveikt var á tökuvélinni. Hugsun mín var að gefa sjónum rödd.
Í verkinu er röddin óbreytt og leyfi þeim hráleika sem fram kom að vera.

Þessar tökur tengdi ég síðan saman og hugsaði að ég væri að draga vatnið inn í kúluna þar sem Ásmundur mótaði Vatnsberann. Kúlan minnir mig á brunn eða uppsprettu og reyndar fór ég að upplifa hana sem móðurkvið og hendurnar sem ég lét strjúka veggina þá eins og hendur sem strjúka móðurkvið innan frá.

Ég vildi varpa verkinu í hring og eyddi miklum tíma heima í stofu á Akureyri til þess að finna leið til þess.
Að lokum dró ég glerskápinn minn út á golf og notaði hillurnar til þess að gera prisma. Þar með náði ég að láta verkið fljóta um íbúðina.

Í Ásmundarsafni gerði ég 3 glerstöpla sem ég sendi myndina í gegn um. Þetta gerir það að verkum að myndin editerast á veggjunum. Hljóðið lét ég koma frá 3 stöðum þannig að það flaut saman eins og vatn.
Verkið vann ég í 2 hlutum og sýndi þann seinni þegar leið á sýninguna. Þar hafði ég einangrað vatnstökurnar og ýtt undir brunntilfinninguna.

Vatnið Syngur 1 og 2
Kúlan Ásmundarsafni

Arna Vals – Vatnið Syngur 2015 – document from Arna Valsdottir on Vimeo.